Erlent

Fjögurra ára fangelsi fyrir blogg

Lögreglumenn leiða A.K. Suleiman út úr réttarsalnum, eftir að hann hafði verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi.
Lögreglumenn leiða A.K. Suleiman út úr réttarsalnum, eftir að hann hafði verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi. MYND/AP
Egypskur bloggari hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að móðga bæði Hosni Mubarak, forseta, og Múhameðstrúna. Abdel Karim Suleiman er 22 ára gamall fyrrverandi laganemi, sem var handtekinn í nóvember síðastliðnum, og hefur setið í fangelsi síðan. Hann var dæmdur fyrir átta blogg sem hann skrifaði árið 2004.

Netið er orðið helsti vettvangur þeirra sem gagnrýna stjórnvöld í Egyptalandi, enda eru flestir fjölmiðlar þar ríkisreknir. Suleiman er að vísu fyrsti bloggarinn sem hefur verið dreginn fyrir dómstóla, en aðrir bloggarar hafa oft verið handteknir og haldið í vikur og jafnvel mánuði, áður en þeim hefur verið sleppt aftur.

Amnesty international segir að með þessum dómi fái tjáningarfrelsið í Egyptalandi enn einn löðrunginn. Samtökin líta á Suleiman sem samviskufanga sem hafi verið fangelsaður fyrir það eitt að tjá skoðanir sínar á friðsamlegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×