Aðþrengda eiginkonan Marcia Cross eignaðist tvíburadætur í Los Angeles á þriðjudag. Stúlkurnar eru fyrstu börn leikkonunnar sem er 44 ára og eiginmanns hennar Tom Mahoney verðbréfamiðlara. Fæðingin hafði verið áætluð í apríl, en Marcia hefur verið rúmföst frá síðasta mánuði.
Marcia leikur Bree Van de Kamp í þáttunum og stóð til að skrifa hana út úr hluta þriðju seríunnar. Framleiðendur Aðþrengdu eiginkvennanna gripu þá til þess ráðs að smíða leikmynd af stofu Bree í húsi Marcia til að geta tekið atriði fyrir þættina heima hjá leikkonunni í Los Angeles.
Móður og börnum heilsast vel og tvíeggja dæturnar hafa hlotið nöfnin Eden og Savannah.
Marcia giftist eiginmanni sínum í júní á síðasta ári.