Erlent

Réttarhöld hafin vegna Madrídarárásanna

Réttarhöld hófust í Madríd í morgun yfir 29 manns sem ákærðir eru fyrir að hafa staðið fyrir hryðjuverkum í borginni í mars 2004. 191 týndi lífi í árásunum sem gerðar voru á járnbrautarlestar borgarinnar.

Búist er við að réttarhöldin standi yfir í marga mánuði enda er málið sérstaklega umfangsmikið. Ákæruskjölin eru yfir 100.000 blaðsíður og á vitnalistanum eru hundruð vitna og sérfræðinga ýmis konar. Í morgun var komið með sakborningana í brynvörðum bíl í réttarsalinn og þegar þangað var komið voru þeir fluttir í sérstaka stúku sem varin er með skotheldu gleri. Sjö af mönnunum 29 eru ákærðir fyrir morð á 191 manni og tilraun til morðs á þeim 1.755 sem særðust í sprengingunum í járnbrautarlestum höfuðborgarinnar 11. mars 2004, degi fyrir þingkosningarnar í landinu. Hinir eru ákærðir fyrir ólöglega meðferð sprengiefna og þátttöku í hryðjuverkastarfsemi. Saksóknar segja að hópurinn sem þeir stofnuðu hafi starfað sjálfstætt en tekið sér öfgakennda hugmyndafræði al-Kaída sér til fyrirmyndar. Flestir mannanna koma frá Marokkó, nokkrir eru Spánverjar og hinir svo frá öðrum löndum Mið-Austurlanda. Lögmenn þeirra segja að þeir muni allir neita sakargiftum og einn mannanna lýsti því raunar yfir í vitnastúkunni í morgun að hann myndi ekki svara neinum spurningum réttarins. Talsverð taugaspenna ríkir á Spáni vegna málsins og hefur viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar hefur verið hækkað í landinu vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×