Innlent

Þjóðarsátt um nýtingu og verndun náttúru

Þjóðarsátt, til framtíðar um nýtingu og verndun auðlinda í jörðu, verður tilbúin eftir þrjú ár, segja ráðherrar iðnaðar- og umhverfis. Blekking, segir formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem telur að stjórnvöld séu að slá ryki í augu almennings nú rétt fyrir kosningar.

Ráðherrarnir kynntu tvö frumvörp á blaðamannafundi í morgun. Annað er um meginreglur umhverfisréttar sem eru að stofni til úr alþjóðasamþykktum. Hitt er breyting á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, það er víkkað út svo það taki líka til nýtingar á vatnsafli og jarðvarma sem menn hafa deilt hatrammlega um síðustu árin. Í frumvarpinu kemur meðal annars fram að landeigandi ræður því alfarið sjálfur við hvern hann semur um rannsóknir og nýtingu. Þá verður meginreglan sú að skylt verði að taka gjald fyrir nýtingu auðlinda í jörðu í þjóðlendum og landi í ríkiseigu.

Samkvæmt frumvarpinu verða tveir starfshópar með fulltrúum allra þingflokka, náttúruverndarsamtaka og hagsmunaaðila. Annar hópurinn á að móta verndaráætlun en hinn nýtingaráætlun. Báðir eiga hóparnir að skila tillögum sínum til forsætisráðherra. Þá tekur þriðji hópurinn við sem samræmir þessar áætlanir í eitt frumvarp sem verður lagt fram á haustþingi 2010. "Með þessu er mótuð leið til þjóðarsáttar, um þetta mikla mál," segir Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, "og það út af fyrir sig markar algjör tímamót."

Umhverfisráðherra segir frumvarpið farveg þjóðarsáttar í þessu viðkvæma deilumáli. Verndaráætlunin eigi að hafa sama vægi og nýtingaráætlunin. "Í verndaráætluninni á að slá því föstu hvaða auðlindir það eru sem ekki verða nýttar og taka þær frá," segir Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra.

Þar til þessi framtíðarsýn næst fram eru þrjú ár og á þeim tíma verður aðeins heimilt að rannsaka og nýta virkjunarkosti sem samkvæmt rammáætlun eru taldir hafa lítil umhverfisáhrif - og ef ekki, þá þurfi samþykki alþingis. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segist ekki sjá sáttina í þessu frumvarpi. Þarna sé verið að gefa leyfi til að virkja fyrir stækkun í Straumsvík, nýtt álver í Helguvík og á Húsavík. "Það er fyrst eftir að öllum virkjanaframkvæmdum sem eru núna nauðsynlegar fyrir þessi álver, ef af þeim verður, fyrst þá á að fara að ræða sættir. Þetta held ég að almenningur kaupi ekki," segir Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. "Fyrir mér er þetta blekking. Ég sé ekki að það sé verið að tala um þetta í einlægni eða fullri alvöru, heldur fyrst og fremst verið að reyna að setja fram rétt fyrir kosningar áætlun sem á að slá ryki í augu almennings."

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×