Handbolti

Sverre og Róbert með bestu nýtinguna

Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson hafa ekki nýtt færi sín á HM eins vel og Róbert Gunnarsson hefur gert.
Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson hafa ekki nýtt færi sín á HM eins vel og Róbert Gunnarsson hefur gert. MYND/Getty

Sverre Jakobsson og Róbert Gunnarsson eru með langbestu skotnýtinguna af leikmönnum íslenska landsliðsins á HM. Róbert hefur skorað úr 13 af 14 skotum sínum í keppninni til þess og er með 93% skotnýtingu en Sverre hefur gert enn betur og er með 100%. Þess ber þó að geta að hann hefur aðeins skotið tvisvar á markið.

Eins og flestir vita spilar Sverre eingöngu varnarleikinn hjá íslenska liðinu en mörkin sín tvö hefur hann skorað eftir að hafa brunað fram í hraðaupphlaupi. Sverre ætti kannski að leggja meiri áherslu á það í leik sínum það sem eftir lifir móts þar sem hann virðist nýta færi sín einstaklega vel.

Róbert hefur skorað flest sín mörk af línunni og aðeins klúðrað einu skoti, en það kom um miðjan síðari hálfleikinn gegn Þjóðverjum í gær.

Guðjón Valur Sigurðsson kemur næstur af íslensku leikmönnunum með 72% skotnýtingu í alls 65 skotum en Alexander Petersson og Sigfús Sigurðsson eru skammt undan; Alexander  með 69% nýtingu og Sigfús 67%.

Logi Geirsson og Snorri Steinn Guðjónsson eru báðir með 54% skotnýtingu en Ólafur Stefánsson hefur gert örlítið betur og er með 58% nýtingu. Arnór Atlason hefur nýtt skot sín verst allra leikmanna íslenska liðsins en aðeins fimm af 14 skotum hans hafa ratað inn í mark andstæðinganna. Það gerir 36% skotnýting.

Þegar frammistaða markmanna íslenska liðsins er skoðuð kemur í ljós að það er Hreiðar Guðmundsson sem hefur hlutfallslega varið best þeirra allra, eða 17 af þeim 41 skoti sem hann hefur fengið á sig. Það skilari Hreiðari 41% markvörslu sem er með því besta sem gerist á HM. Birkir Ívar Guðmundsson, sem spilað hefur langmest íslensku markvarðanna, er með 34% markvörslu en Roland Valur Eradze er með 32% markvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×