Erlent

10 til 15 manns rænt í Nablus

Herskáir bandamenn Abbas, forseta Palestínumanna, rændu í dag einum leiðtoga Hamas. Mannræningjunum virtist sama þótt mannránið væri myndað í bak og fyrir. Mannránið er enn eitt merki um stigmagnandi átök fylkinga Palestínumanna en á þriðja tug manna hafa fallið frá því átökin blossuðu upp á fimmtudag.

Mannræningjarnir voru fimmtán talsina og allir lisðmenn Al Aqsa herdeildanna. Að sögn vitna höfðu þeir farið um nærliggjandi götur í leit að þekktum Hamas-liðum. Þegar þeir fréttu af ferðum Fayyads Al-Arba, eins leiðtoga samtakanna, réðust þeir inn í banka þar sem hann var staddur og höfðu hann á brott með sér. Eftir stóðu gjaldkerar í forundran og myndatökumenn og ljósmyndarar fjölmiðla sem mynduðu atburðinn í bak og fyrir. Mannræningarnir höfuð ekki fyrir því að hylja andlit sín og reyndu ekki að koma í veg fyrir myndatökur.

Skömmu síðar réðust liðsmenn herdeildanna inn á skrifstofu menntamálaráðuneytis heimastjórnarinnar í Nablus, lögðu hana í rúst og rændu fimm starfsmönnum. Abu Jabal, leiðtogi Al-Aqsa í Nablus, segir liðsmenn sína hafa rænt 10 til 15 manns í dag.

Á sama tíma berjast liðsmenn Fatah og Hamas á götum Gaza-svæðisins og hafa hátt í 30 Palestínumenn fallið síðan á fimmtudaginn og tæplega 80 særst. 60 hafa týnt lífi síðan um miðjan desember.

Viðræðum um skipan þjóðstjórnar beggja fylkinga hefur verið frestað á meðan barist er og hvetja forvígismenn Fatah og Hamas liðsmenn sína til að leggja niður vopn. Þeir kenna svo hver öðrum um ástandið.

Heimastjórn Hamas kom saman til neyðarfundar í Gaza-borg í dag. Ismail Haniyeh forsætisráðherra hvetur Abbas til að kalla Fatah-liðsmenn sína af götum heimastjórnarsvæaðanna svo hægt verði að tryggja öryggi borgara.

Óvíst er hvað forsetinn gerir og stefnir að óbreyttu í snemmbúnar þing- og forsetakosningar sem Abbas hefur boðað takist ekki að mynda þjóðstjórn innan þriggja vikna.

Síðdegis í dag bárust fréttir af því að Abdullah konungur Sádía Arabíu hefði boðið fulltrúum Fatah og Hamas til friðarviðræðna í Mekka. Fatah- og Hamas-liðar hafa fagnað boðinu segjast tilbúnir til viðræðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×