Erlent

Áfram barist á Gaza

Blóðug átök stríðandi fylkinga Palestínumanna héldu áfram á Gaza-svæðinu í nótt og í morgun. Tuttugu og fimm hafa týnt lífi og sjötíu og sex særst frá því bardagar hófust seint á fimmtudagskvöld. Tólf ára drengur féll þegar til skotbardaga kom milli liðsmanna Hamas og Fatah á norður hluta Gaza-svæðisins í gærkvöldi.

Sprengingar og byssugelt mátti heyra víða á svæðinu í morgun og ekkert lát virðist ætla að verða á bardögum. Forvígismenn Hamas og Fatah hafa hvatt liðsmenn sína til að leggja niður vopn en án árangurs. Hvorki gengur né rekur í viðræðum um skipan þjóðstjórnar beggja fylkinga og því stefnir allt í snemmbúnar kosningar líkt og Abbas, forseti, hefur hótað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×