Erlent

Tónlistariðnaðurinn í mál við netveitur

MYND/Heiða

Alþjóðasamtök tónlistariðnaðarins hótuðu í gær að fara í mál við þau fyrirtæki sem sjá fólki fyrir nettenginum og leyfa því að hlaða niður tónlist ólöglega. Samtökin sögðu að þau færu í mál við þá þjónustuaðila sem væru með mesta umferð af ólöglegri tónlist á vefþjónum sínum.

Formaður samtakanna, John Kennedy, sagði að lögsóknir gætu hafist á næstu vikum frekar en mánuðum. Þau vilja að internetþjónustuaðilar sjái um að aftengja frá netinu þá sem skiptast á tónlistarskrám ólöglega. Alþjóðasamtök tónlistariðnaðarins fóru í mál við rúmlega 10.000 manns í 18 löndum árið 2006. Þau unnu mörg stór mál og þar á meðal gegn skráaskiptirisanum Kazaa sem þurfti að borga 58 milljónir dollara í skaðabætur.

Þjónustuaðilarnir benda hins vegar á að þeir geti ómögulega fylgst með öllum upplýsingum sem fara um vefþjóna sína. Þeir segja einnig að Alþjóðasamtök tónlistariðnaðarins en ekki þjónustuaðilinn verði að sanna að notandinn sé sekur um ólöglegt athæfi.

Breska dagblaðið The Independent segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×