Erlent

Þrír Íslandsvinir hrepptu verðlaun

Tveir Íslandsvinir hrepptu samtals þrjár styttur þegar Golden Globe verðlaunin voru afhent í Hollywood í gærnótt. Helen Mirren hlaut tvenn verðlaun fyrir leik sinn í tveimur myndum um Englandsdrottningar og Forest Whitaker ein fyrir túlkun sína á einræðisherranum Idi Amin.

Það eru erlendir gagnrýnendur og blaðamenn í Hollywood sem veita Gullhnettina á hverju ári og eru þessi verðlaun sögð vísbending um hverjir hafa betur í baráttunni um Óskarsstytturnar í næsta mánuði.

Í nótt var breska leikkonan Helen Mirren verðlaunuð fyrir að túlka tvær Elísabetur, það er Elísabetu fyrstu Englandsdrottningu í sjónvarpsþáttaröð um hana og Elísabetu aðra í myndinni "Drottningin" sem fjallar um dauða Díönu prinsessu af Wales og eftirmála hans.

Whitaker mun að mati gagnrýnenda hafa unnið leiksigur með túlkun sinni á Idi Amin í myndinni Síðasti konungur Skotlands. Amin stjórnaði Austur-Afríkuríkinu Úganda með harðri hendi á áttunda áratug síðustu aldar. Besta drama-myndin var valin Babel með þeim Brad Pitt og Cate Blanchett í aðalhlutverkum.

Á Golden Globe verðlaunahátíðinni eru gaman- eða söngvamyndir verðlaunaðar sérstaklega. Besta mynd úr þeim hópi var valin söngvamyndin um Draumastúlkunar. Grínarinn Eddie Murphy er þar í aukahlutverki og var verðlaunaður fyrir. Sacha Baron Cohen var valinn besti aðalleikari í gamanmynd fyrir túlkun sína á kasakska fréttamanninum Borat í samnefndri mynd. Í ræðu sinni þakkaði Cohen öllum þeim Bandaríkjamönnum sem hefðu ekki lögsótt hann vegna myndarinnar.

Meryl Streep hreppti hnossið sem aðalleikona í gamanmynd fyrir myndina Djöfullinn klæðist Prada. Martin Scorsese var valinn besti leikstjórinn fyrir myndina Departed og besta erlenda myndin var Letters from Iwo Jima eftir Clint Eastwood.

Besti dramaþátturinn var Læknalíf, eða Greys Anatomy, og besti gamanþátturinn Ljóta Bettý.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×