Innlent

Skíðasvæði lokuð fyrir sunnan opin annarsstaðar

Það er fallegt í Bláfjöllum, á þessari mynd, en þar er hinsvegar ekkert skíðafæri ennþá.
Það er fallegt í Bláfjöllum, á þessari mynd, en þar er hinsvegar ekkert skíðafæri ennþá. MYND/Vilhelm Gunnarsson

Þrátt fyrir að snjó hafi kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga verður lokað í Bláfjöllum og Skálafelli í dag. Grétar Hallur Þórisson forstöðumaður skíðasvæðanna sagði í samtali við fréttastofu í morgun að snjórinn væri svo þurr og léttur að grjót stæði upp úr um leið og hann hreyfði vind.

Hann sagði þó fara að styttast í að hægt verði að opna. Hlýindi væru í kortunum og þá kæmi blotasnjór í fönnina sem væri það sem vantaði. Lengra er í að hægt verði að opna í Skálafelli, þar er bara grjót og gras, segir Grétar.

Hlíðarfjall opnaði klukkan tíu og verður opið til klukkan fimm. Þar er ágætis skíðasnjór, 8-10 stiga frost og logn. Á Sauðárkróki er lokað á skíðasvæði Tindastóls í Skagafirði.

Skíðasvæðið í Oddsskarði er opið frá 10 til fimm. Bjartur himinn, fimm stiga frost og fínt skíðafæri.

Skíðasvæðið á Ísafirði er opið í dag. Þar er gott skíðafæri en mikil lausamjöll sem gæti farið að fjúka ef vindar taka að blása.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×