Erlent

Búinn að fá nóg

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, vill ekki sitja annað kjörtímabil í embætti og vill losna úr ráðuneytinu áður en núverandi tímabil er liðið. Hann gagnrýnir Bandaríkjamenn fyrir að bregðast of seint við ofbeldi í landinu. Bandaríkjamenn segja á móti að þeir hefðu hagað aftöku Saddams Hússein öðruvísi.

William Caldwell, talsmaður Bandaríkjahers í Írak, sagði á blaðamannafundi í Bagdad í morgun að bandarísk stjórnvöld hefðu farið öðruvísi að við aftöku Saddams Hússeins, fyrrverandi Íraksforseta. Írakar hafi hins vegar ráðið því hvernig að henni var staðið og Bandaríkjamenn hafi ekki haft neitt um málið að segja.

Írösk stjórnvöld rannsaka nú hvernig farsímaupptaka af aftökunni hafi lekið á netið. Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, látið skipa rannsóknarnefnd á vegum innanríkisráðuneytisins sem verður falið að rannsaka hver hafi gert upptökuna og hverjir hafi látið ókvæðisorð falla í garð Saddams rétt áður en hann var tekinn af lífi.

Spennan magnast enn í landinu og í morgun var greint frá því að fjörutíu og fimm lík hafi fundist víða í höfuðborginni í gær. Áverkar á líkunum bendi til þess að fólkið hafi verið pyntað og síðan myrt.

al-Maliki, forsætisráðherra, sagði í viðtalið við Wall Street Journal í gær að hann hefði ekki áhuga á að sitja annað kjörtímabil og óskaði þess jafnvel að þurfa ekki að sitja á enda það kjörtímabil sem nú sé að líða. Hann sagðist einungis hafa tekið að sér embættið því hann hafi talið að það þjónaði hagsmunum þjóðarinnar. Maliki gagnrýndi erlendan herafla landsins undir stjórn Bandaríkjamanna og íraska herinn fyrir að bregðast of seint og of hægt við ofbeldi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×