Viðskipti innlent

Peningaskápurinn …

Lítillæti Hannesar

FL Group skilaði uppgjöri í gær og var hagnaður félagsins rúmir 23 milljarðar á fyrstu sex mánuðum ársins. Menn þar á bæ eru himinlifandi með árangurinn, enda umfram spár auk þess að vera margfalt meiri hagnaður en fyrir sama tímabil í fyrra. Fram kemur í tilkynningu frá FL Group að hagnaðurinn sé 304 prósent meiri heldur en á sama tíma fyrir ári. Hannes Smárason forstjóri virðist þó ekki jafn sleipur í reikningi og menn skyldu halda og lætur hafa eftir sér að hagnaður félagsins hafi þrefaldast frá fyrra ári. Svo er hins vegar ekki því hagnaðurinn var 5,7 milljarðar króna á fyrri árshelmingi ársins 2006, en 23,1 á nýliðnum árshelmingi. Því væri rétt að segja að hagnaður félagsins hefði aukist um 304 prósent, og fjórfaldast.

Tívolígjaldmiðill

Íslenska krónan er í sannkallaðri rússíbanareið og áhættufjárfestar flýja landið í stórum stíl, skrifar Ole Mikkelsen í Berlingske Tidende. Ole fjallar um fall krónunnar síðustu daga og segir braskara til skamms tíma hafa stundað lántöku í Japan, þar sem vextir eru nánast í núllpunkti, og fjárfest á Íslandi þar sem vextirnir séu svimandi háir. Ole er svartsýnn á framtíð íslensku krónunnar og hefur þetta eftir Lars Christensen, sérfræðingi Danske Bank: „Vinur minn spilar fótbolta í efstu deild á Íslandi. Ég ráðlagði honum að fá laun næstu tveggja mánaða í evrum eða dönskum krónum." Hafa ber þó í huga að danskir miðlar hafa löngum verið svartsýnir fyrir hönd íslensks efnahagslífs og hingað til ekki sannspáir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×