Skoðun

Töfraorð og orðaleikfimi

Í umræðu um sjávarútvegsmál er oft á tíðum haldið á lofti ýmsum bábiljum um meinta hagræðingu kvótakerfisins í sjávarútvegi og uppbyggingu fiskistofna. Það er gert reglulega til að réttlæta eyðingu hinna dreifðu byggða og láta landsmenn sætta sig við óréttlætið og sóunina sem fylgir íslenska kvótakerfinu.

Þessu halda á lofti ýmsir sem taldir eru til hinna málsmetandi sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum og fá þeir jafnvel að brynna landsmönnum af visku sinni í hinum ýmsu fréttaskýringaþáttum.

Hverjar eru staðreyndir málsins? Verðmæti útfluttra sjávarafurða er um 10% lægra nú en það var fyrir áratug og á þessu tímabili hafa orðið miklar verðhækkanir á sjávarafurðum. Ekki hefur þó allt lækkað, skuldir sjávarútvegsins hafa hækkað margfalt. Ekki er að sjá að skuldaaukningin hafi orðið vegna fjárfestinga í greininni þar sem tekjurnar hafa minnkað. Togaraflotinn hefur elst og eru nú 40% skipanna eldri en þrítug sem er mikil breyting frá því fyrir um áratug þegar einungis 2% skipa fylltu þann virðulega aldur.

Upphaflegt markmið kerfisins var að byggja upp þorskstofninn og ef mark má taka á mælingum Hafró er ekki að sjá að það hafi tekist. Nú ráðleggur Hafró að veitt verði þrisvar sinnum minna en gert var fyrir daga kvótakerfisins sem átti að byggja upp þorskstofninn. Það er vitlaust gefið.

Það er orðið löngu tímabært að taka núverandi kerfi til rækilegrar endurskoðunar og kemur það mjög á óvart að nýlegur stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokks og samstarfsflokks hans taki ekki til þess máls sem veldur óstöðugleika og sóun í sjávarútveginum.

Töfraorðinu hagræðingu fylgir galdraorðið hagvöxtur sem lysthafendur sveifla í kringum sig þegar þeir egna fyrir kvótann. Frjálslyndi flokkurinn er hins vegar ekki í neinum innantómum orðaleik, Frjálslyndi flokkurinn hefur lagt fram ábyrgar tillögur til breytinga á stjórnun fiskveiða og nú ríður á að stjórnvöld taki þær til málefnalegrar umræðu.

Gefum útgerðarmönnum frí frá orðaleikfimi og tölum saman á mannamáli um það sem máli skiptir.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×