Viðskipti innlent

Slúður og fréttir

Þótt sumarið nálgist óðfluga býst ég ekki við neinni lognmollu á markaðnum á næstunni. Ég ráðlegg reyndar engum að fara út í hanaslag um mitt sumar þegar fjölmiðlar upplifa tóma gúrkutíð. Hver gleymir látunum í Straumi-Burðarási í fyrrasumar og SPRON-málinu fyrir nokkrum árum?

Yfirtökuáform Baugs í Mosaic Fashions og Eyjamanna í Vinnslustöðina leggjast misvel í menn og trúi ég því varla að öll kurl séu komin þar til grafar.

Mikið rosalega var ég ósáttur með það verð sem Baugur ætlar að borga fyrir Mosaic. Ég keypti skammt í útboðinu fyrir tveimur árum á 13,6 og fæ því bara 29 prósent ofan á það og sjö prósent ofan á síðasta viðskiptagengi. Hvernig voru aftur hin óskráðu lögmál um þrjátíu prósenta yfirverð í Bretlandi?

Og ætla Binni og félagar í Eyjum að læsa Guðmund Kristjánsson og aðra hluthafa inni á verði sem er langt undir síðasta markaðsgengi?

En ég á allt eins von á því að fleiri félög verði skotspónn „yfirtökumanna“ á árinu. Maður heyrir orðróm um að FL Group hafi boðið í Atorku Group. Beið ég ekki lengi boðanna og skellti mér á vænan skammt í Atorku.

Annars eru alls kyns sögusagnir í gangi um bankana og önnur fyrirtæki sem verður að taka með varúð. En auðvitað ber alltaf að hafa hið gamla húsráð spákaupmanna í hávegum að kaupa á slúðri og selja á staðreyndum.

Spákaupmaðurinn á horninu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×