Viðskipti innlent

Endurspeglar ekki hluthafahópinn

Nokkur breyting verður á stjórn Icelandic Group sem verður kjörin í dag á aðalfundi félagsins. Athygli vekur að enginn frá fjárfestingarfélaginu ISP býður sig fram til stjórnar. Félagið, sem er dótturfélag TM, er fjórði stærsti hluthafinn í Icelandic Group. Það heldur utan um 12,4 prósenta hlut í Icelandic Group og ætti því venjum samkvæmt að hafa fulltrúa í stjórn.

Í nýrri stjórn verður sem fyrr Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Hf. Eimskipafélags Íslands. Hann heldur að öllum líkindum áfram stjórnarformennsku hjá Icelandic Group. Þeir Aðalsteinn Helgason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, og Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, sitja einnig áfram. Nýir koma inn þeir Guðmundur P. Davíðsson, forstöðumaður hjá Landsbankanum, og Steingrímur H. Pétursson, sem verið hefur varamaður í stjórn félagsins.

Erfitt verk fyrir höndum

Úr stjórn Icelandic Group fara þeir Jón Kristjánsson, einn eigenda fjárfestingarfélagsins Sunds, og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, fyrrverandi stjórnarformaður Icelandic Group og stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar. Baldur Guðnason, sem situr áfram í stjórn Icelandic Group, telur ekkert athugavert við að frambjóðanda frá ISP skorti til stjórnarsetunnar.

Stærstu hluthafarnir virðist hafa „komið sér saman um hæfa einstaklinga í stjórnina sem gætu unnið vel saman og stutt við framtíð félagsins". Rík þörf er á stuðningi við framtíð Icelandic Group. Rekstur félagsins hefur gengið dapurlega að undanförnu. Meðal tillagna sem liggja fyrir aðalfundinum í dag er að enginn arður verði greiddur til hluthafa fyrir síðasta ár. Það kemur ekki á óvart í ljósi þess að félagið tapaði 1.078 milljónum króna á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×