Erlent

Ætla að sitja um Mogadishu

Þúsundir manna eru á vergangi vegna átakanna í Sómalíu.
Þúsundir manna eru á vergangi vegna átakanna í Sómalíu. MYND/AP

Sómalski stjórnarherinn, með fulltingi eþíópískra hersveita, nálgast nú óðfluga höfuðborgina Mogadishu þar sem íslamskir uppreisnarmenn hafa bækistöðvar. Í morgun vann stjórnarherinn áfangasigur þegar hann lagði undir sig borgina Jowhar í suðurhluta landsins.

Uppreisnarmennirnir sem kenna sig við hið íslamska dómsstólaráð hafa um nokkurt skeið sótt að hinni veikburða ríkisstjórn landsins en átökin komust á nýtt stig um helgina þegar stjórnarhernum barst liðsstyrkur frá Eþíópíu. Eþíópíuher er einn sá öflugasti í álfunni og því kemur það fáum á óvart að skæruliðarnir hafa hörfað síðustu sólarhringa. Í morgun náði stjórnarherinn borginni Jowhar í suðurhluta landsins á sitt vald en hún hernaðarleg þýðing hennar er umtalsverð. Nú síðdegis var svo herlið komið fast að höfuðborginni Mogadishu en þar ráða íslamistarnir lögum og lofum. Til að koma í veg fyrir mannfall borgara ætlar herinn hins vegar ekki að ráðast til inngöngu heldur sitja um borgina þar til skæruliðarnir gefast upp.

Afríkubandalagið krafðist þess í dag að allt erlent herlið yrði dregið til baka frá Sómalíu. Þar er vitaskuld átt við Eþíópíumennina en einnig vígamenn frá Erítreu sem sagðir eru fylgja íslamistunum að máli. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þingaði um átökin á neyðarfundi í gær en ekki náðist sátt um ályktun og því verður málið rætt þar áfram í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×