Körfubolti

Madison Square Garden logaði í slagsmálum

Hér má sjá aðdraganda slagsmálanna í New York í nótt, en ljóst er að Carmelo Anthony (með ennisband í dökkum búningi) á ekki von á góðu eftir að hafa kýlt leikmann New York
Hér má sjá aðdraganda slagsmálanna í New York í nótt, en ljóst er að Carmelo Anthony (með ennisband í dökkum búningi) á ekki von á góðu eftir að hafa kýlt leikmann New York AP

Leikur New York Knicks og Denver Nuggets í NBA deildinni í nótt breyttist úr körfuboltaleik í hnefaleikakeppni á lokamínútunum. Tíu leikmönnum var vísað úr húsi og á stigahæsti leikmaður deildarinnar Carmelo Anthony líklega yfir höfði sér langt keppnisbann fyrir lúalegt hnefahögg.

Denver var yfir 119-100 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum en þá braut Mardy Collins leikmaður New York illa á JR Smith hjá Denver með þeim afleiðingum að Smith tók andstæðing sinn hálstaki. Upphófust þá nokkrar riskingar milli leikmanna sem enduðu á að allt logaði í slagsmálum á gólfinu. Hnefar fóru á loft og á myndbandi má augljóslega greina að stigahæsti maður deildarinnar, Carmelo Anthony, átti þar hlut að máli.

Ljóst er að leikmennirnir sem komu við sögu í ólátunum eiga yfir höfði sér harðar refsingar frá David Stern og yfirmönnum deildarinnar, sem hafa tjaldað öllu til að bæta ímynd deildarinnar eftir uppþotið í Detroit um árið.

"Ég kenni í brjóst um bæði lið og deildina og það er skammarlegt að svona lagað skuli koma uppá í besta stað í heiminum til að horfa á körfubolta," sagði George Karl, þjálfari Denver um atvikið í Madison Square Garden í nótt.

"Menn eiga eftir að bregðast við þessu á einn eða annan hátt, ég vil ekki tjá mig um þetta á þessu stigi," sagði Carmelo Anthony eftir leikinn. Leikmenn og þjálfarar New York vildu meina að Denver hefði verið að sýna andstæðingum sínum vanvirðingu með því að láta byrjunarliðsmennina vera inni á vellinum þegar úrslitin voru löngu ráðin og New York hafði þegar skipt inn sínum varamönnum - en það afsakar þó ekki gremju leikmanna liðsins.

Smelltu hér til að sjá myndband ESPN.com af slagsmálunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×