Innlent

Frumvarpi um RÚV vísað til þriðju umræðu

MYND/GVA
Samþykkt var um tvöleytið á Alþingi að vísa frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. til þriðju umræðu með 49 atkvæðum. Eins og fram hefur komið í fréttum fer þriðja umræða um frumvarpið fram eftir áramót samkvæmt samkomulagi stjórnarliða og stjórnarandstöðu. Frumvarpi um Sinfóníuhljómsveit Íslands sem kveður á um að Ríkisútvarpið hætti þátttöku í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar var einnig samþykkt.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd deildu hart á frumvarpið og sagði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, að ef það yrði samþykkt myndi að það bæði valda óánægju í samfélaginu og málaferlum bæði utan lands og innan. Vildi hann setja á fót sáttahóp til að vinna að frumvarpinu.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri - grænna, kallaði frumvarpið aðför Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að RÚV sem fæli í sér einkavæðingu því verið væri að flytja RÚV úr opinberum rétti til einkaréttar. Markmiðið væri að selja Ríkisútvarpið síðar meir.

Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, varði hins vegar frumvarpið og sagði Ríkisútvarpið ekki til sölu. Það myndi á næstu árum eflast og sinna almannahlutverki sínu betur.

Sigurður Kári Kristjánsson, formaður nefndarinnar, benti auk þess á að tekið hefði verið tillit til fjölmargra athugasemda stjórnarandstöðunnar og frumvarpinu um RÚV breytt, þar á meðal að upplýsingalög giltu um fyrirtækið og að bannað yrði að selja eignir þess sem teldust til þjóðargersema.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×