Innlent

Aukin hætta á skriðu­föllum vegna rigningar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Mikilli rigningu er spáð á Vestur- og Suðurlandi.
Mikilli rigningu er spáð á Vestur- og Suðurlandi. Vísir/Vilhelm

Veðurstofa Íslands varar við aukinni hættu á skriðuföllum næstu viku vegna mikillar rigningar. Mikilli úrkomu er spáð næstu daga.

Í tilkynningu skriðuvaktar Veðurstofunnar kemur fram að úrkomusöm vika sé framundan á Vestur- og Suðurlandi. Einnig hefur rignt mikið undanfarnar nætur. 

„Jarðvegurinn er nú þegar blautur og það er frekar hlýtt og mikil rigning. Það er ekkert frost lengur í jörðinni, allaveganna á láglendi og það getur farið eitthvað af stað,“ segir Martina Stefani, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Jarðvegurinn fær ekki nægan tíma til að þorna á milli úrkomuskeiða. Auk þess er hitastigið óvenjuhátt miðað við árstíma.

Spáð er fyrir talsverðri rigningu aðfaranótt miðvikudags á Reykjanesi, Suðurlandi undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli, sem og á sunnanverðum Vatnajökli. Samkvæmt spá Veðurstofunnar kemur næsta lægð á fimmtudag.

Í gær féll vatnsrík jarðvegsskriða nálægt bænum Miðdal í Kjós. Þá var einnig tilkynnt um grjóthrun við Hvalfjarðarveg. Veðurstofa hefur ekki fengið neinar tilkynningar um skriðuföll það sem af er degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×