Fótbolti

Atouba í vondum málum

Atouba sýndi stuðningsmönnum Hamburg hvað honum þótti um þá í kvöld með þessu afdráttarlausa fingramáli sínu
Atouba sýndi stuðningsmönnum Hamburg hvað honum þótti um þá í kvöld með þessu afdráttarlausa fingramáli sínu NordicPhotos/GettyImages

Kamerúnski landsliðsmaðurinn Timothee Atouba hjá Hamburg á væntanlega von á mjög harðri refsingu frá félagi sínu og aganefnd knattspyrnusambands Evrópu eftir að hann sýndi stuðningsmönnum Hamburg miðfingurinn þegar honum var skipt af velli í langþráðum sigri liðsins í Meistaradeildinni í kvöld.

Atouba gaf CSKA Moskvu vítaspyrnu með klaufalegu broti og átti svo stóran þátt í hinu marki rússneska liðsins með silalegum varnarleik. Eftir síðara markið fékk Thomas Doll þjálfari nóg og skipti Atouba af velli, en Afríkumaðurinn brást hinn versti við þegar stuðningsmenn Hamburg bauluðu á hann og veifaði löngutöng í alla enda stúkunnar þegar hann gekk af velli.

Dómarinn gaf honum umsvifalaust rautt spjald, en sem betur fer fyrir Hamburg var liðið búið að framkvæma skiptinguna og því fékk liðið að halda áfram með 11 menn á vellinum og vann góðan og langþráðan sigur. Ljóst er að Atouba á yfir höfði sér harða refsingu fyrir þetta ljóta atvik.

Thomas Doll þjálfari segist ætla að ræða við leikmanninn vegna atviksins, en tók þó upp hanskann fyrir hann. "Ég mun ræða við Atouba því svona framkoma á ekki að sjást á knattspyrnuvellinum. Það er hinsvegar algjör óþarfi fyrir hans eigin stuðninsmenn að baula á hann þegar hann fer af velli og það gerir bara illt verra. Hann mun halda áfram að spila með okkur," sagði Doll. Atouba hefur verið óvinsæll hjá stuðningsmönnum liðsins síðan í sumar þegar hann krafðist þess að fá hærri laun hjá félaginu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×