Erlent

Farsímanotkun talin skaðlaus

Danskir vísindamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að notkun farsíma geti valdið krabbameini þótt símarnir sendi frá sér öflugar rafsegulbylgjur.

Allt frá því að farsímar komu fram á sjónarsviðið hafa menn deilt um hættuna sem fylgir noktun þeirra. Ekki þarf að fjölyrða um háskann sem getur fylgt farsímanotkun undir stýri enda er hún bönnuð með lögum. En áhyggjur fólks hafa líka beinst að þeirri staðreynd að símarnir senda frá sér öflugar rafsegulbylgjur sem smjúga í gegnum heilann, líkt og þessar hér. Stóra spurningin er, geta þær valdið krabbameini eða öðrum alvarlegum sjúkdómum? Þetta vildu vísindamennirnir við Krabbameinsstofnun Danmerkur kanna og til þess gerðu þeir rannsókn sem náði til allra farsímanotenda í Danmörku hvorki meira né minna, alls 420.000 manns. Sumir höfðu notað símann í hartnær tvo áratugi og því ætti vænn skammtur af rafsegulbylgjum að hafa farið í gegnum höfuðið á þeim. Þegar fjöldi krabbameinstilfella hjá farsímanotendum var borinn saman við afganginn af þjóðinni kom dálítið merkilegt í ljós. Munurinn var ekki marktækur og raunar mældist tíðni krabbameins örlítið LÆGRI hjá þeim sem nota síma en hinum sem gera það ekki. Vísindamennirnir hafa samt þann fyrirvara á að í rannsókninni ekki er gerður greinarmunur á stórnotendum á sviði farsímaskrafs og þeirra sem tala minna í símann og því er ekki útilokað að tíðnin sé hærri í þeim hópi.

Formælandi rannsóknarinnar sagði niðurstöðurnar bæði áreiðanlegar og jákvæðar í viðtali við Reuters-fréttastofuna í dag, sem var vitaskuld tekið í gegnum farsíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×