Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, segir að ekkert annað en sigur komi til greina í kvöld þegar Barcelona tekur á móti Bremen í sterkum A-riðli Meistaradeildarinnar. Eiður Smári Guðjohnsen verður væntanlega í byrjunarliði Barca í leiknum, sem sýndur verður beint á Sýn klukkan 19:30.
"Bremen er lið sem spilar svipað heima og úti. Þetta er lið sem skipað er líkamlega sterkum og hávöxnum leikmönnum og Bremen er tvímannalaust sterkara lið í ár en það var í fyrra," sagði Rijkaard, en Barcelona vann báðar viðureignir liðanna í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð. "Bremen kemur hingað til að vinna, en það kemur ekkert annað en sigur til greina hjá okkur og því verðum við að sækja í kvöld."
Þjálfari þýska liðsins segir sína menn ætla að sækja til sigurs, en eftir tap í fyrsta leiknum hefur Bremen unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli - sem þýðir að liðið er tveimur stigum á undan Barcelona og situr í öðru sæti riðilsins á eftir Chelsea. "Við berum mikla virðingu fyrir Barcelona - en við óttumst ekkert. Allir gerðu ráð fyrir því að Chelsea og Barcelona færu örugglega áfram upp úr þessum riðli í haust, en annað hefur komið á daginn og það yrði sannarlega frábært afrek að komast upp úr þessum riðli í 16 liða úrslit," sagði Thomas Schaaf, þjálfari Bremen.
Líkleg byrjunarlið:
Barcelona: Víctor Valdés; Gianluca Zambrotta, Carles Puyol,
Rafael Márquez, Giovanni van Bronckhorst; Edmílson, Xavi Hernández,
Deco; Ludovic Giuly, Ronaldinho, Eidur Gudjohnsen.
Bremen: Tim Wiese; Clemens Fritz, Per
Mertesacker, Naldo, Pierre Wome; Tim Borowski, Torsten Frings, Diego,
Daniel Jensen; Aaron Hunt, Miroslav Klose.