Fótbolti

Ronaldinho segir að Barca muni sækja til sigurs

Eiður Smári Guðjohnsen og félagar hans hjá Barcelona skemmtu sér vel á æfingu í dag.
Eiður Smári Guðjohnsen og félagar hans hjá Barcelona skemmtu sér vel á æfingu í dag. MYND/Getty Images

Brasilíski snillingurinn Ronaldinho segist sannfærður um að Barcelona verði í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi í Katalóníu í dag.

“Við erum með sama sjálfstraust og vanalega. Okkur líður frábærlega. Aðeins sigur dugir okkur þannig að það hvílir mikil pressa á herðum okkar. En við höfum verið í þessari stöðu áður og vitum hvað þarf að gera. Ég er viss um að okkur tekst ætlunarverkið,” sagði Ronaldinho.

Sá brasilíski segir að Barcelona muni spila eins og alltaf, blússandi sóknarleik þar sem áhersla verður lögð á að skora snemma leiks. Eiður Smári Guðjohnsen verður að öllum líkindum fyrir framan Ronaldinho í sóknarleik Barca og fær Brasilíumaðurinn það hlutverk að mata íslenska landsliðsfyrirliðann með góðum sendingum. “Við munum sækja til sigurs. Hins vegar er Bremen venjulega með góðar skyndisóknir svo að við verðum með varann á,” sagði hann.

Ronaldinho var hvíldur í leiknum gegn Levante um helgina og ætti því að mæta fullfrískur til leiks á Nou Camp annað kvöld. Spurður út í fjarveru sína í leiknum á laugardag sagði Ronaldinho: “Ég horfði á leikinn í sjónvarpi. Mér finnst mjög erfitt að horfa á leiki úr fjarlægð. Ég vill alltaf spila.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×