Erlent

Fríverslunarviðræður eftir áramótin

MYND/Utanríkisráðuneytið

Viljayfirlýsing um upphaf fríverslunarviðræðna milli Íslands og Kína var undirrituð í Peking í dag. Í gær var fyrsti áfangi íslenskrar hitaveitu tekinn í notkun í Kína. Miklar vonir eru bundnar við hitaveituna og er stefnt að því að hún verði sú stærsta í heimi.

Uppbygging hitaveitunnar er samstarfsverkefni kínversks orkufyrirtækis og ENEX Kína, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, Glitnis og ENEX, útflutningsvettvangs íslenskra þekkingarfyrirtækja í orkuvinnslu. Hitaveitan, sem gangsett var í gærmorgun er fyrir þrjá háskóla og hitar upp um 170.000 fermetra. Það samsvarar um 2.500 manna bæjarfélagi á Íslandi. Þessi hluti kostaði rúmar 200 milljónir króna, en sá næsti sem ráðgert er að ráðast í á næsta ári er mun stærri og er metinn á um 4,2 milljarða króna.

Fram til þessa hefur þetta húsnæði verið kynt með kolabruna. Jarðhiti og orka sprottin af honum er skilgreind sem „græn orka" í orkustefnu kínverska alþýðulýðveldisins og því talin hafa í för með sér stórkostlega möguleika til að sjá Kína og öðrum löndum fyrir hreinni orku til húshitunar.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra gangsetti hitaveituna að viðstöddu fjölmenni. Hún segir það sitt mað að sala og útflutningur á þekkingu sé eitt það mikilvægasta fyrir Ísland. Á þessu sviði séu Íslendingar einfaldelga sérfræðingar og hún á von á að þessi nýja hitaveita geti orðið upphafið að einhverju mun stærra.

Valgerður átti í morgun fund með ráðamönnum í Peking þar sem viljayfirlýsing um upphaf fríverslunarviðræðna milli ríkjanna var undirrituð. Þær viðræður hefjast þegar í upphafi árs 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×