Erlent

Rumsfeld hafði efasemdir

Nokkrum dögum áður en Donald Rumsfeld, fyrrverandi landvarnaráðherra Bandaríkjanna, sagði af sér embætti hafði hann lagt til meiriháttar breytingar á stefnunni í Írak við forsetaembættið.

Þetta kemur fram í bandaríska stórblaðinu New York Times í dag en það hefur undir höndum trúnarskjal sem Rumsfeld sendi Hvíta húsinu tveimur dögum áður en hann tilkynnti um afsögn sína í nóvemberbyrjun. Afsögnin kom í kjölfar sigurs demókrata í þingkosningunum en ógöngur Bandaríkjahers í Írak var ein höfuðástæða góðs gengis þeirra. Í minnisblaðinu segir Rumsfeld að augljóst sé að framganga hersins í Írak sé hvorki að skila skjótum né góðum árangri og því sé kominn tími til róttækra breytinga á stefnunni. Að hans mati hafi ófriðurinn í Írak breyst yfir í blóðugt stríð trúarhópa sem æ erfiðara sé að koma böndum á. Á meðal úrbóta sem hann stingur upp á er að kalla hluta herliðsins heim eða flytja það til staða þar sem rósturnar séu minni. Með því megi meðal annars knýja Íraka til að taka meiri ábyrgð á sínu eigin landi. Til að lágmarka pólitískan skaða heima fyrir leggur Rumsfeld hins vegar til að stjórnvöld reyni að draga úr væntingum bandarísks almennings til stefnubreytinganna þannig að ef þær mistækjust mundi hann ekki draga þá ályktun að stríðið væri þar með að tapast. Talsmaður Pentagon hefur staðfest uppruna skjalsins og segir það endurspegla vel þær hugmyndir sem Rumsfeld hafði um stríðsreksturinn á lokadögum sínum í embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×