Körfubolti

Dallas vann 12. leikinn í röð

Josh Howard hjá Dallas treður knettinum í körfu Sacramento í leik liðanna í nótt. Dallas er á fljúgandi siglingu í NBA-deildinni.
Josh Howard hjá Dallas treður knettinum í körfu Sacramento í leik liðanna í nótt. Dallas er á fljúgandi siglingu í NBA-deildinni.

Dallas er á miklu skriði í NBA-deildinni í körfubolta og í nótt vann liðið sinn tólfta leik í röð. Fórnarlambið að þessu sinni var Sacramento - lokatölur urðu 109-90.

Viðsnúningurinn á gengi Dallas hefur verið lyginni líkust því liðið tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu. Síðan þá hefur liðið hins vegar ekki tapað leik og vilja margir meina að ástæðan fyrir dapri byrjun liðsins sé sú að lykilmenn liðsins spiluðu lítið sem ekkert á undirbúningstímabilinu. Nú eru þeir hins vegar búnir að finna sitt rétta form og fær fátt stöðvað þá breidd sem Dallas býr yfir.

Josh Howard var stigahæstur Dallas með 24 stig en Dirk Nowitzki, sem lék með á ný eftir meiðsli, var með 16 stig og tók 10 fráköst.

Fjölmargir leikir voru á dagskrá í NBA í nótt og af öðrum leikjum bar hæst að Orlando heldur sínu striki sem eitt af spútnikliðum leiktíðarinnar. Í nótt lagði liðið Portland af velli, 91-89, og hefur unnið 13 af 17 leikjum sínum það sem af er.

Detroit er komið á gott skrið eftir brösuglega byrjun og eftir 108-100 sigur á New York í nótt hefur liðið unnið átta leiki í röð. Tayun Prince skoraði mest fyir Detroit í nótt, eða 31 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×