Körfubolti

Michael Redd skaut Lakers í kaf

Michael Redd hefur verið sjóðandi heitur það sem af er tímabili með Milwaukee
Michael Redd hefur verið sjóðandi heitur það sem af er tímabili með Milwaukee NordicPhotos/GettyImages

Michael Redd átti stórleik í nótt þegar Milwaukee bar sigurorð af LA Lakers á útivelli 109-105 í NBA deildinni. Redd skoraði 45 stig, þar af 18 í lokaleikhlutanum og afstýrði þar með 11. tapi Milwaukee í röð gegn Lakers. Kobe Bryant skoraði 27 stig fyrir Lakers en var með afleita skotnýtingu. Lamar Odom var bestur hjá Lakers með 21 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar.

Washington lagði Atlanta naumlega 96-95 þar sem Caron Butler tryggði liðinu sigur á lokasekúndunum. Butler og Gilbert Arenas skoruðu 21 stig fyrir Washington, en Joe Johnson skoraði 33 stig fyrir Atlanta.

Charlotte lagði New Jersey 96-92 eftir að hafa tapað fimm leikjum í röð. Richard Jefferson skoraði 27 stig fyrir Nets en nýliðinn Adam Morrison skoraði 22 stig fyrir Charlotte.

Toronto vann sinn fyrsta útileik í vetur með því að vinna óvænt auðveldan sigur á New Orleans 94-77 í beinni útsendingu á NBA TV. Chris Bosh skoraði 19 stig og hirti 14 fráköst fyrir Toronto en Chris Paul skoraði 16 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir New Orleans.

Chicago lagði New York í annað sinn á fjórum dögum 102-85. Ben Gordon skoraði 23 stig fyrir Chicago en Eddy Curry skoraði 24 stig fyrir New York.

Houston lagði Minnesota 82-75 þar sem Yao Ming skoraði 25 stig fyrir Houston en Kevin Garnett skoraði 25 stig og hirti 11 fráköst fyrir Minnesota.

Denver tapaði mjög óvænt á heimavelli fyrir Memphis 108-96 þar sem Hakim Warrick skoraði 25 stig fyrir Memphis en Carmelo Anthony skoraði 37 stig fyrir Denver. Memphis hafði tapað 17 leikjum í röð fyrir Denver áður en það náði loks að vinna í gær.

Indiana lagði Portland á útivelli 105-97. Danny Granger skoraði 21 stig fyrir Indiana en Zach Randolph skoraði 30 stig og hirti 11 fráköst hjá Portland.

Loks vann Sacramento góðan sigur á LA Clippers 93-80 og því hefur lið Clippers ekki unnið útileik í 6 tilraunum á tímabilinu. Liðið hefur þar að auki ekki unnið í Sacramento síðan árið 1997 - alls 17 leikir - og Sacramento hefur unnið 14 leiki í röð gegn Clippers. Ron Artest skoraði 28 stig fyrir Sacramento og Mike Bibby átti líka frábæran leik með 19 stigum, 10 stoðsendingum og 7 fráköstum. Shaun Livingston skoraði 20 stig fyrir Clippers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×