Erlent

Kynjakvóti tekinn upp í Frakklandi

Segolene Royal, forsetaframbjóðandi Sósíalista í Frakklandi verður fyrsti kvenforseti Frakklands ef hún ber sigur úr býtum í kosningunum á næsta ári.
Segolene Royal, forsetaframbjóðandi Sósíalista í Frakklandi verður fyrsti kvenforseti Frakklands ef hún ber sigur úr býtum í kosningunum á næsta ári. MYND/AP

Stjórnvöld í Frakklandi hafa sett saman nýtt frumvarp sem á að neyða flokka til þess að koma fleiri konum í fremstu víglínu í stjórnmálum. Samkvæmt nýja frumvarpinu verða héraðs- og sveitastjórnir þar í landi að hafa jafnmargar konur og karlmenn. Einnig er kveðið á um að flokkar sem nái ekki þessu takmarki í landskosningum missi 75% af ríkisstyrkjum sínum.

Ráðherrar hafa lofað því að gera frumvarpið að lögum en það tekur þó ekki gildi fyrr en 2008 og er búist við því að þau eigi eftir að koma allt að 4.000 konum í fremstu víglínu í frönskum stjórnmálum.

Konur í Frakklandi fengu ekki kosningarétt fyrr en 1945 og örfáar hafa komist til frama í stjórnmálum. Samkvæmt nýrri skýrslu um réttindi kvenna eru aðeins 12.2% löggjafarvaldsins konur og er Frakkland því í 84. sæti þeirra 135 ríkja sem skoðuð voru og eru eftirbátar nærri allra Evrópusambandslanda. Íslenskar konur lentu þar í 10 sæti og eru alls 33% löggjafarvaldsins kvenkyns hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×