Erlent

Ólgan vex vegna morðsins

Al Sharpton.
Al Sharpton. MYND/AP

Mikil reiði ríkir á meðal þeldökkra Bandaríkjamanna eftir að óvopnaður blökkumaður var skotinn til bana fyrir utan næturklúbb í New York um helgina, nokkrum klukkustundum fyrir brúðkaup sitt.

Ættingjar og vinir hins 23 ára gamla Sean Bells, sem skotinn var til bana aðfararnótt laugardagsins fyrir utan næturklúbb í New York, tóku sér mótmælastöðu í gær fyrir utan sjúkrahúsið í Queens þangað sem farið var með Bells og félaga hans. Á meðal þeirra sem létu í sér heyra var blökkumannaleiðtoginn Al Sharpton, sem krafðist þess að réttlætinu yrði að fullnægja, annars yrði enginn friður. "Við verðum að muna að við vorum öll farþegar í bílnum," sagði Sharpton og gaf þannig í skyn að lögreglumennirnir sem skutu á bifreið Bells og félaga hefðu látið stjórnast af kynþáttahatri. Árásin hefur vakið sérstaka athygli þar sem enginn mannanna var vopnaður heldur voru þeir að skemmta sér í tilefni þess að Bells átti að ganga í það heilaga síðar um daginn. Lögregla hafði skemmtistaðinn undir eftirliti og þegar félagarnir óku í ógáti utan í ómerktan lögreglubíl var skotum látið rigna yfir þá. Tveir félagar Bells særðust alvarlega og voru því færðir í járnum á sjúkrahús. Háværar kröfur eru um að lögreglustjórinn verði látinn víkja en hann ætlar að ræða málið við leiðtoga blökkumanna í borginni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×