Erlent

Varar við borgarastyrjöld í þremur löndum

Ísraelskur hermaður gengur á skriðdrekaröð nærri Kibbutz Mefalsim í suðurhluta Ísraels nærri Gasaströndinni.
Ísraelskur hermaður gengur á skriðdrekaröð nærri Kibbutz Mefalsim í suðurhluta Ísraels nærri Gasaströndinni. MYND/AP

Abdullah, konungur Jórdaníu, varar við því að borgarastyrjöld kunni að brjótast út í þremur ríkjum í Miðausturlöndum ef alþjóðasamfélagið grípi ekki inn í. Löndin sem um ræðir eru Líbanon, Írak og palestínsku sjálfsstjórnarsvæðin en þar hefur spenna magnast að undanförnu.

Abdullah segir lykilatriði að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna þar sem átökin í Írak og ástandið í Líbanon séu að hluta til tengd henni. Sagði hann Bandaríkjamenn verða að horfa á heildarmyndina þegar þeir reyndu að leysa vandamálin í Írak og fá til liðs við sig Írana og Sýrlendinga, en andað hefur köldu milli þjóðanna tveggja og Bandaríkjanna undanfarin misseri. Reiknað er með að Abdullah taki málið upp á fundi sínum með George Bush Bandaríkjaforseta síðar í vikunni.

Eins og kunnugt er var Pierre Gemayel, iðnðarráðherra Líbanons, myrtur á þriðjudaginn var og telja margir Líbanar að Sýrlendingar hafi staðið á bak við morðið. Þá létust á þriðja hundrað manns í árásum í Bagdad á fimmtudag því er óhætt að segja að ástandið í báðum löndum sé eldfimt.

Hins vegar var vopnahléi komið á milli Hamas-samtakanna og Ísraelshers á Gaza um helgina og það virðist af mestu hafa verið virt. Ísraelskir hermenn skutu þó palestínskan andófsmann og konu í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×