Erlent

Aðskilnaðarsinnar styðja ályktun um Quebec

Flokkkur aðskilnaðarsinna í Quebec í Kanada hefur samþykkt að styðja þingsályktun um að frönskumælandi íbúar Quebec séu þjóð í sameinuðu Kanada. Gagnrýnendur segja tillöguna af pólitískum toga og hún muni stuðla að sundrungu landsins, en hugmyndir um sjálfstæði hins frönskumælandi héraðs hafa komið upp áður og valdið miklum titringi.

Gilles Duceppe, leiðtogi Bloc Quebecuois, segir að þingsályktunin, sem Stephen Harper forsætisráðherra lagði óvænt fram á miðvikudag, muni auðvelda aðskilnaðarsinnum að styðja kröfu um sjálfstæði Quebec í framtíðinni.

"Það er alltaf betra, þegar við berjumst fyrir sjálfstæðu Quebec, að Kanada skuli viðurkenna það að íbúar Quebec séu þjóð," segir Duceppe.

Duceppe ætlaði að leggja fram svipaða þingsályktunartillögu á miðvikudag, en tillaga hans gekk lengra að því leiti að ekki var í henni talað um sameinað Kanada. Duceppe er sagður hafa reiðst ákaflega þegar forsætisráðherrann varð fyrri til með sína tillögu.

Allir helstu flokkar á kanadíska þinginu, sem standa gegn þvi að Quebec fái sjálfstæði, styðja tillögu Harpers. Um er að ræða ályktun sem ekki á að þurfa að leiða til breytinga á stjórnarskrá Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×