Körfubolti

Indiana - Cleveland í beinni í nótt

LeBron James er ávísun á fullkomna skemmtun fyrir körfuboltaáhugamenn og hann verður væntanlega í aðalhlutverki gegn Indiana í nótt
LeBron James er ávísun á fullkomna skemmtun fyrir körfuboltaáhugamenn og hann verður væntanlega í aðalhlutverki gegn Indiana í nótt NordicPhotos/GettyImages

Það verður mikið um dýrðir í NBA deildinni í nótt þar sem ekkert var leikið í gærkvöld vegna þakkagjörðarhátíðarinnar í Bandaríkjunum. Nokkrir mjög athyglisverðir leikir verða í nótt og NBA TV sjónvarpsstöðin á Fjölvarpinu sýnir leik Indiana og Cleveland beint klukkan eitt eftir miðnættið.

Cleveland er með efstu liðunum í Austurdeildinni en á meðan liðinu hefur gengið mjög vel í leikjum gegn sterkari liðum deildarinnar, hefur það tapað fyrir liðum eins og Toronto og Charlotte. Cleveland er eitt af aðeins þremur liðum í Austurdeildinni sem eru með vinningshlutfall yfir 50%.

Bæði Cleveland og Indiana töpuðu síðustu leikjum sínum. Cleveland fyrir Toronto og Indiana lá fyrir Orlando. Cleveland hefur unnið þrjár síðustu viðureignir sínar gegn Indiana, en hefur aðeins einu sinni náð að sigra í síðustu sex heimsóknum sínum til Indianapolis.

LeBron James er að vanda stigahæsti leikmaður Cleveland með 27,6 stig að meðaltali í leik og hirðir auk þess 7 fráköst og gefur 6,6 stoðsendingar í leik. Hjá Indiana er Jermaine O´Neal atkvæðamestur til þessa í vetur með 17,5 stig að meðaltali og hirðir hann auk þess 9,5 fráköst.

Tveir sannkallaðir stórleikir verða auk þessa á dagskrá í Vesturdeildinni þar sem Texasrisarnir San Antonio og Dallas mætast í San Antonio, en síðarnefnda liðið vann fyrstu viðureign liðanna í Dallas í fyrsta leik liðanna í vetur.

Þá verður einnig mjög forvitnilegt að fylgjast með leik Spútnikliðs Utah Jazz og LA Lakers í Salt Lake City, en bæði þessi lið hafa komið gríðarlega á óvart í byrjun leiktíðar. Utah hefur unnið 11 af fyrstu 12 leikjum sínum á tímabilinu og Lakers unnið 8 og tapað 3 - en þess ber að geta að Lakers hefur aðeins spilað 3 útileiki til þessa í deildinni og einn þeirra var grannaslagur liðsins við LA Clippers sem haldinn er á sameignilegum heimavelli liðanna í Los Angeles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×