Töluvert af geislavirku efni hefur fundist í líkama rússneska njósnarans Alexanders Litvinenkos, sem lést af völdum eitrunar á sjúkrahúsi í Lundúnum í gærkvöldi. Skömmu fyrir andlátið sagði hann Pútín Rússlandsforseta bera ábyrgð á örlögum sínum. Forsetinn vísar því alfarið á bug.
Fyrsta nóvember síðasliðinn veiktist Litvinenko eftir fund með ítölskum öryggissérfræðingi, þar sem þeir ræddu morðið á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkoskayu, sem féll fyrir morðingjahendi í síðasta mánuði. Síðan þá hefur Litvinenko barist fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Lundúnum og tapaði þeirri baráttu í gærkvöldi.
Í dag var svo ljóst að geislavirka efnið polonium 210 greindist í líkama Litvinenkos og einnig á veitingastaðnum þar sem hann snæddi með heimildamanni sínum. Sigurður Emil Pálsson, eðlisfræðingur hjá Geislavörnum ríkisins, segir um náttúrulegt efni að ræða sem verði einnig til í kjarnorkuiðnaði. Það gefi frá sér afla geislun og litla aðra geilsun. Hann segir erfitt að greina hana utan líkamans. Alfageislun sé skammdræg og jafnvel pappírsörk geti stöðvað hana. Komist efnið í líkamann geti áhrifin verið alvarleg.
Í tilviki Litvinenkos virðist hafa orðið mikil geislun, áhrifin séu bráð þegar svo sé. Ónæmiskerfi lamist og ýmis líffæri. Svo virðist sem mikið af efninu hafi komist í líkama Litvinenkos.
Litvinenko starfaði hjá KGB og síðar rússnesku öryggislögreglunni áður en hann leitaði hælis í Bretlandi 2001. Hann komst í ónáð hjá Pútín Rússlandsforseta, þegar sá síðarnefndi var yfirmaður öryggislögreglunnar. Ættingjar og vinir Litvinenkos ræddu við fjölmiðlamenn í Lundúnum í dag. Alex Goldfarb, vinur Litvinenkos, las upp yfirlýsingu frá honum sem var rituð skömmu fyrir andlát hans. Þar eru Pútín Rússlandsforseta ekki vandaðar kveðjurnar og hann sagður bera ábyrgð á örlögum njósnarans fyrrverandi.
Pútín Rússlandsforseti vísar ásökununum á bug og segir ekkert hæft í þeim. Andstæðingar hans séu að nýta sér dauða Litvinenkos til að koma höggi á hann. Forsetinn vottaði ættingjum njósnarans fyrrverandi samúð sína á blaðamannafundi síðdegis.