Alexander Litvinenko, fyrrverandi njósnari hjá KGB sem talið er að eitrað hafi verið fyrir, fékk hjartaáfall í nótt og ástand hans er sagt mjög alvarlegt. Litvinenko hefur dvalið á University College sjúkrahúsinu í Lundúnum frá því í byrjun mánaðarins en nýjustu fregnir herma að þrír hlutir hafi fundist í meltingarvegi hans.
Læknar segja nú ólíklegt að honum hafi verið byrlað talíumsúlfat en útiloka ekki að hann hafi innbyrt geislavirkt talíum. Vinir Litvinenkos, sem er harður andstæðingur Rússlandsstjórnar, saka rússnesku leyniþjónustuna um að standa á bak við tilræðið en því hafa yfirvöld í Kreml vísað á bug.
Litvinenko rannsakaði morðið á rússnesku blaðakonunni Önnu Politkovskaju þegar hann veiktist og beinist rannsókn Scotland Yard á eitruninni að því hvort Litvinenko hafi verið byrlað eitur á fundum með tveimur mönnum sem hann átti daginn sem hann veiktist.