Erlent

Sameinuðu þjóðirnar gegn ofbeldi gagnvart konum

Sjóður Sameinuðu þjóðanna sem á að binda enda á ofbeldi gagnvart konum mun gefa alls 3,5 milljónir dollara, eða um 250 milljónir íslenskra króna, til verkefna sem eiga að miða að því að binda enda á ofbeldi gagnvart konum. Þetta er jafnframt stærsta upphæð sem sjóðurinn hefur deilt út.

Peningunum á að deila niður á ýmis ríki sem standa ekki framarlega í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum en alls hafa um 89 ríki sett lög um slíkt. Formaður UNIFEM, Noeleen Heyzer, var líka ánægð með að framlög til sjóðsins hafa aukist mikið. Ísland er á meðal þeirra sem leggja fram fé til sjóðsins.

Flest verkefnin sem fá styrk miða að því að breyta löggjöf til hins betra fyrir konur sem þurfa að takast á við ofbeldi heima fyrir. Löndin sem fá styrki eru meðal annars Argentína, Líbería, Rúanda, Úkranía og Zimbabwe.

Sjóðnum var komið á fót árið 1996 og er stjórnað af UNIFEM. Síðan hann var stofnaður þá hefur hann deilt út alls 13 milljónum dollara, eða 931 milljón íslenskra króna, í um 226 verkefni í yfir 100 löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×