Fótbolti

Platini situr ekki á skoðunum sínum

Michel Platini
Michel Platini Mynd/Stefán Karlsson

Michel Platini, fyrrum landsliðsmaður Frakka sem þrisvar var sæmdur Gullskónum sem leikmaður, segir að Fabio Cannavaro eigi alls ekki skilið að verða sæmdur verðlaununum í ár. Víst þykir að Cannavaro muni verða sæmdur verðlaununum í lok mánaðarins, en fréttir þess efnis hafa lekið í fjölmiðla að undanförnu.

"Ég er búinn að segja það áður og segi það enn. Thierry Henry og Ronaldinho eiga miklu frekar skilið að fá þessi verðlaun en Fabio Cannavaro og ef á að veita þessi verðlaun á þeirri einu forsendu að leikmaðurinn hafi orðið heimsmeistari - á að láta Buffon markvörð Ítala fá þau," sagði Platini og notaði tækifærið og hraunaði yfir Francesco Totti, leikmann Roma.

"Totti hefur alltaf verið mjög efnilegur leikmaður og getur breytt leik á einni sekúndu. En þá eru ótaldar hinar 89 mínúturnar og 59 sekúndurnar í leiknum. Hann er allt of mikill Rómverji og skortir fjölhæfni. Hann hefði átt að vera farinn frá Roma fyrir löngu og hefði haft gott af því að spila með liði í Þýskalandi," sagði Platini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×