Erlent

Hætt við útgáfu á bók O.J. Simpson

Simpson í réttarhaldinu árið 1995.
Simpson í réttarhaldinu árið 1995. MYND/AP

Fyrirtækið News Corp. hefur hætt við útgáfu á bók O.J. Simpsons "If I did it", sem útleggst á hinu ylhýra sem "Ef ég hefði gert það" og fjallaði um hvernig hann hefði myrt fyrrum konu sína Nicole Brown Simpson og vin hennar Ron Goldman. Einnig hefur verið hætt við að sýna sjónvarpsviðtal við O.J. um bókina en það átti að sýna í næstu viku.

Bókin hefur valdið miklum fjaðraþyt í Bandaríkjunum og fólk keppst við því að lýsa yfir hversu siðlaus hún sé og ekki síst það að gefa hana út. Varð ástandið svo slæmt að útgefandi bókarinnar sá sig tilneydda til þess að gefa út yfirlýsingu á fimmtudaginn var um hvers vegna hún ákvað að gefa bókina út.

Útgefandinn sagði þar að Simpson hefði komið með hugmyndina að bókinni og að hann hefði víst fengið um þrjár og hálfa milljón dollara fyrir hana en það er nálægt 250 milljónum íslenskra króna.

Simpson var sýknaður af morðunum en var síðan talinn bera ábyrgð á morðunum í annars konar málsókn sem var höfðuð gegn honum. Þurfti hann því að greiða fjölskyldunum tveim, Goldman og Brown bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×