Erlent

Kína hugsanlega í samstarf við Pakistan

Hu Jintao heilsar fólki eftir komu sína til Indlands.
Hu Jintao heilsar fólki eftir komu sína til Indlands. MYND/AP

Búist er við því að Kínverjar eigi eftir að tilkynna um samstarfssamning við Pakistan í kjarnorkumálum í næstu viku. Talið er að það sé vegna síaukinna tengsla Bandaríkjanna og Indlands og væntanlegs kjarnorkusamstarfs þeirra á næstu árum.

Kínverski forsetinn Hu Jintao er sem stendur í opinberri heimsókn í Indlandi en þetta er aðeins önnur heimsókn kínversks forseta til Indlands á síðustu sextíu árum. Löndin tvö áttu meðal annars í stríði árið 1962 vegna landamæradeilna. Er heimsóknin hugsuð til þess að draga úr spennu milli landanna tveggja.

Þar sem löndin tvö hafa opnað hagkerfi sín til muna hafa viðskipti milli þeirra aukist gríðarlega undanfarin ár. Indverjar vilja hins vegar takmarka þáttöku kínverskra fyrirtækja á Indlandi og bera fyrir sig þjóðaröryggi. Líklegt þykir einnig að þar sem löndin eru í óða önn að iðnvæðast muni þau verða miklir samkeppnisaðilar um hvers konar auðlindir í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×