Erlent

Velflestir gíslar fengu frelsi

Velflestir þeirra sem rænt var í menntamálaráðuneytinu í Bagdad í gær hafa nú verið látnir lausir eða frelsaðir af lögreglu. Ekki hefur fengist staðfest að allir gíslarnir hafi fengið frelsi.

Atburðir gærdagsins í Írak vöktu athygli þó mannrán hafi verið tíð þar frá upphafi Íraksstríðs. Ekki hefur jafn mörgum verið rænt í einu þar í landi en menn klæddir sérsveitarbúningum lögreglu ruddust inn í byggingu menntamálaráðuneytisins í Bagdad og rændu karlmönnum þeim sem þar voru.

Eitthvað hefur verið á reiki hvað þeir voru margir og misvísandi fréttir fluttar af fjölda gísla. Fyrst voru þeir sagði allt frá 100 til 150 en þegar leið á gærdaginn greindi innanríkisráðuneytið Íraska frá því að þeir væru nærri 50. Gíslum var síðan sleppt einum af öðrum ómeiddum fram eftir degi og þeir síðustu sagðir hafa fengið frelsi um miðnætti í nótt. Það hefur þó ekki fengist staðfest og einhverra enn leitað að sögn BBC.

5 háttsettir lögreglumenn hafa verið handteknir vegna málsins og vekur það ugg meðal ráðamanna að mannræningjarnir hafi komist yfir búninga lögreglu eða þá náð að gera af þeim eftirlíkingar, enda var litlum mótmælum hreyft í fyrstu þegar þeir hlupu inn í bygginguna.

Mennta- og vísindamenn eru vinsæl skotmörk og fórnarlömb mannrána í Bagdad og fyrir vikið flýja þeir sem teljast til þessa hóps nú land unnvörpum. Háskólar í Írak voru opnaðir á ný í morgun eftir að þeim var lokað í gær. Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, heimsótti Háskólann í Bagdad og fullvissaði kennara og nemendur um að allt yrði gert til að tryggja öryggi þeirra.

Öryggi á öðrum svæðum er þó ekki nærri því jafn vel tryggt. 11 týndu lífi og 32 særðust þegar bílsprengja sprakk á bílastæði í miðborg Bagdad í morgun. 7 týndu lífi og 23 særðust þegar önnur bílsprengja sprakk nærri mosku í Sadr-hverfi í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×