Erlent

5 lögreglumenn handteknir vegna mannrána

Lögreglumenn skoða vettvang.
Lögreglumenn skoða vettvang. MYND/AP

Allt bendir nú til þess að 50 starfsmönnum og gestum rannsóknarstofu á vegum menntamálaráðuneytisins í Írak hafi verið rænt í morgun en ekki rúmlega hundrað eins og var sagt í fyrstu. 20 hefur verið sleppt. 5 lögreglumenn hafa verið handteknir og búið er umkringja hús þar sem talið er að gíslar séu í haldi.

Mannræningjarnir voru klæddir sérsveitarbúningum lögreglunnar. Þeir óku pallbílum að ráðuneytinu í morgun og fóru eins og stormsveipur um bygginguna. Þeir skipuðu öllum konum inn í eitt herbergi og höfðu á brott með sér alla karlmenn í húsinu, vísindamenn, fræðimenn, öryggisverði og gesti. Vitni segja byssumenn hafa umkringt ráðuneytið og síðan leitt gísla sína út í járnum. Lausnargjalds hefur ekki verið krafist og ekki víst hvort súnníum hafi einvörðungu verið rænt eða hvort sjíar hafi einnig verið teknir í gíslingu. Upphaflega var talið að á bilinu hundrað til hundrað og fimmtíu mönnum hefði verið rænt en nú hefur forsætisráðuneytið íraska upplýst að talan er nærri fimmtíu.

Menntamálaráðherra Íraks lét loka öllum háskólum landsins eftir atburði morgunsins. Þeir yrðu ekki opnaðir aftur fyrr en öryggi nemenda og starfsmanna hefði verið tryggt - enda hafi mannræningjar oftar en ekki rænt menntamönnum. Stjórnendur háskóla í Írak og námsmenn eru ósáttir við þessa ákvörðun.

Ástandið í Írak var til umræðu á fundi sérskipaðrar ráðgjafanefndar Bandaríkjaþings í Washington í dag. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ræddi við nefndarmenn í gegnum myndsíma í dag. Einnig var rætt við Donald Rumsfeld, fráfarandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra. Nefndin skilar niðurstöðu í næsta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×