Erlent

Rússar sagðir vera að ná undir sig gasmarkaði Evrópu

Efnahagssérfræðingar NATO hafa varað við því að Rússar kunni að vera að búa til bandalag gasframleiðsluríkja allt frá Alsír til Mið-Asíu, sem noti gasið sem pólitískt vopn gegn Evrópu.

Rússar sjá Evrópu þegar fyrir fjórðungi af því gasi sem þar er notað. Og Rússar hafa oftar en einusinni beitt gasinu gegn ríkjum sem þeir hafa komist upp á kant við. Það á bæði við Úkraínu, þar sem Rússar hreinlega lokuðu fyrir gasið, og Georgíu þar sem þeir hafa tvöfaldað verðið.

Í leynilegri skýrslu efnahagssérfræðinga NATO segir að Rússar stefni að því að taka höndum saman við Alsír, Libyu, Quatar, Mið-Asíu og hugsanlega Íran í bandalagi sem verði ráðandi í gasframleiðslu á heimsmarkaði. Í skýrslunni er vitnað beint í Sergei Lavrov, utanríkisráðherra, sem skýrði rússneskum embættismönnum frá þessari ráðagerð.

Evrópusambandið hefur lengi reynt að fá Rússa til að skuldbinda sig til þess að veita eðlilega þjónustu í gasframleiðslu sinni, og nota ekki gasið sem pólitískt vopn. Vladimir Putin, forseti, hefur hummað þetta framaf sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×