Erlent

Fulltrúi SÞ hitti leiðtoga Frelsishers Drottins

Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum flaug í gær til fundar við uppreisnarleiðtoga frá Úganda, sem sakaður er um stríðsglæpi. Hann hefst við í Súdan og er sagður halda konum og börnum í gíslingu.

Joseph Kony, leiðtogi Frelsishers Drottins í Úganda, hefst nú við í Súdan. Jan Egeland, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, flaug til fundar við hann í gær til að reyna að semja við hann um lausn kvenna og barna sem hreyfingin heldur föngum.

Uppreins Frelsishersins í Úganda hófst fyrir um tveimur áratugum og hefur liðsmönnum hópsins verði kennt um morð, limlestingar og mannrán. Þeir eru sagðir hafa rænt börnum og þjálfað þau til voðaverka eða beitt þau kynferðislegu ofbeldi. Hjálparsamtök segja tvær milljónir íbúa í Úganda á vergangi vegna átakanna.

Egeland er fyrsti háttsetti erindreki Sameinuðu þjóðanna sem fær að hitta Kony, sem vill nær enga fjölmiðlaathygli, af ótta við að hann verði sendur til Haag til að svara fyrir stríðsglæpi sem hann er sakaður um. Fundurinn var haldinn í kjarrlendi á hlutlausu svæði og mætti Kony þar í fylgd 30 lífvarða. Kony og Egeland tókust í hendur áður en þeirr ræddust við í 10 mínútur. Kony sagði engar konur eða börn í haldi hjá þeim, aðeins bardagamenn.

Egeland segir þennan stutta fund í gær hafa verið mikilvægan. Uppreisnarmenn ætli að veita upplýsingar um fjölda kvenna og barna í búðum þeirra sem teljist þó ekki gíslar að mati Frelsishersins. Egeland vildi ekki ræða handtökuskipanir sem hafa verið gefnar út á hendur Kony og bandamönnum hans. Uppreisnarmenn vilja láta fella þær úr gildi áður en heildstætt friðarsamkomulag verði undirritað. Stjórnvöld í Úganda ætla hins vegar ekki að óska þess nema samkomulag verði undirritað á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×