Erlent

Leiðtogar arabaríkja vilja friðarráðstefnu

Mahmoud al-Zahar, utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar á fundi Arababandalagsins í Kaíró í dag.
Mahmoud al-Zahar, utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar á fundi Arababandalagsins í Kaíró í dag. MYND/AP

Utanríkisráðherra aðildarríkja Arababandalagsins samþykktu á neyðarfundi sínum í dag að kalla eftir friðarráðstefnu vegna ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem að kæmu fulltrúar Sameinuðu þjóðanna, Palestínu og Ísraels. Til fundarins var boðað í Kaíró vegna aðgerða Ísraelshers á Gasaströndinni undanfarna daga en í einni af árásum hersins létust átján óbreyttir borgarar, þar á meðal konur og börn.

Utanríkisráðherrarnir ákváðu einnig á fundi sínum að rjúfa þær efnahagslegu þvinganir sem komið var á eftir að Hamas-samtökin sigruðu í þingkosningum í Palestínu fyrr á árinu. Arabaríkin hyggjast því koma peningum til palestínsku þjóðarinnar.

Utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, Mahmoud al-Zahar, neitaði að segja til um það hvort fulltrúar Palestínumenn myndu koma á slíka friðarráðstefnu og sagði framtíðina leiða það í ljós. Formælandi ísraelska utanríkisráðuneytisins sagði að slík ráðstefna gæti orðið vettvangur til að taka upp Vegvísinn til friðar sem lagður hefur verið til hliðar í deilum ísraelskra og palestínskra yfirvalda undanfarna mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×