Viðskipti innlent

Aukið tap hjá DeCode

Hús Íslenskrar erfðagreiningar.
Hús Íslenskrar erfðagreiningar. Mynd/Vilhelm

DeCode, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar, tapaði 23,6 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 1,6 milljörðum króna, á þriðja fjórðungi ársins samanborið við 11,4 milljónir dala tap eða tæplega 778 milljónir króna, á sama tíma í fyrra. Tap móðurfélagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 62,2 milljónum dala eða 4,2 milljörðum króna sem er 1,4 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra en þá nam tapið 2,8 milljörðum.

Í tilkynningu frá félaginu segir að ástæðurnar séu aukinn kostnaður við rannsóknir og þróun á lyfjum.

Tekjur DeCode á þriðja ársfjórðungi námu 8,6 milljónum dala eða tæplega 587 milljónum króna sem er nokkur lækkun á milli ára en á sama tíma í fyrra námu tekjurnar 13,2 milljónum dala eða 900,5 milljónum króna. Tekjurnar á níu mánaða tímabili námu 29,1 milljón dala eða 2 milljörðum króna samanborið við 34,2 milljónir dala eða 2,3 milljarða krónur á sama tíma í fyrra.

Eigið fé DeCode nam 126,8 milljónum dala í lok september. Þetta svarar til rúmlega 8,6 milljarða íslenskra króna. Í lok síðasta árs nam eigið fé móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar 155,6 milljónum dala eða 10,6 milljörðum króna og hefur það því lækkað um 2 milljarða krónur á fyrstu níu mánuðum ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×