Erlent

CBS spáir demókrata sigri í lykilríkinu Ohio

Þingmaðurinn Geoff Davis á kjörstað í Hebron í Kentucky.
Þingmaðurinn Geoff Davis á kjörstað í Hebron í Kentucky. MYND/AP

Kjörstöðum hefur nú verið lokað eða eru að loka í flestum ríkjunum í austurhluta Bandaríkjanna. Sums staðar hafði kosning tafist, t.d. í Tennessee, Indiana, Ohio og Flórida. Farið er að birta fyrstu útgönguspár og sjónvarpsstöðvarnar eru byrjaðar spá niðurstöðum í einstökum kjördæmum. CBS sjónvarpsstöðin spáir demókratanum Sherrod Brown sigri í keppni um öldungadeildarsæti í Ohio og segir að hann felli sitjandi repúblíkanann Mike DeWine. Ohio er eitt af sjö lykilríkjum í baráttunni um meirihluta í Öldungadeildinni. Demókratar þurfa að vinna fimm þeirra til viðbótar til að ná meirihlutanum og 14 þingsæti til að ná meirihluta í fulltrúadeild þingsins.

Hin lykilríkin í öldungardeildarbaráttunni eru Montana, Rhode Island, Tennessee, Pennsylvania, New Jersey og Missouri.

Samkvæmt fyrstu útgönguspám um niðurstöður kosninga til Öldungadeildar Bandaríkjaþings (um klukkan 22:30) þá voru Demókratar með forystu sem hér segir í eftirtöldum ríkjum: Virginíu (D52-R47), Rhode Island (D53-R46), Pennsylvaníu (D57-R42), Ohio (D57-R43), New Jersey (D52-R45), Montana (D53-R46), Missouri (D50-R48), Maryland (D53-R46).

Repúblíkanar voru forystuna í eftirfarandi ríkjum samkvæmt sömu spám: Tennessee (R51-D48), Arizona (R50-D46).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×