Fótbolti

Þjálfari dæmdur í lífstíðarbann

Stanislav Bernikov, fyrrum þjálfari þriðjudeildarliðsins Metallurg Lipetsk í Rússlandi, hefur verið dæmdur í lífstíðarbann frá atvinnuknattspyrnu eftir að hafa ráðið handrukkara til að berja þrjá af fyrrum leikmönnum sínum hjá liðinu.

Rússneska knattspyrnusambandið lét rannsaka málið og í ljós koma að þjálfarinn hafði átt í deilum við þrjá af leikmönnum liðsins eftir að það var sakað um mútur. Skömmu síðar var ráðist á leikmennina og einn þeirra var í kjölfarið lagður inn á sjúkrahús þar sem hann þurfti að liggja í nokkrar vikur með brotið nef og skotsár á hendi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem mál á borð við þetta koma upp í rússnesku íþróttalífi, en árið 1997 var yfirmaður íshokkísambandsins í landinu skotinn til bana í bíl sínum á leið tili vinnu og aðeins tveimur mánuðum síðar var fjármálahirðir knattspyrnufélagsins Spartak Moskvu skotinn til bana af leigumorðingjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×