Fótbolti

Argur yfir að þurfa að sitja á bekknum

Ronaldo er mjög ósáttur við stöðu mála hjá Real og vill fá að spila meira
Ronaldo er mjög ósáttur við stöðu mála hjá Real og vill fá að spila meira NordicPhotos/GettyImages

Brasilíski framherjinn Ronaldo hjá Real Madrid segist undrast það að þurfa að húka á varamannabekknum hjá Fabio Capello þjálfara og segist ekki skilja til hvers þjálfarinn ætlist af sér.

Ronaldo var markahæsti maður Real á síðustu leiktíð með 14 mörk þrátt fyrir að eiga við meiðsli að stríða eins og oft áður, en hann virðist nú vera búinn að missa sæti sitt í liðinu til Ruud Van Nistelrooy.

"Það versta við að fá ekki að spila er að þjálfarinn skuli ekki hafa trú á manni og ég hef enga hugmynd um hvernig ég á að ávinna mér traust hans," sagði Ronaldo sem hefur leikið aðeins 100 mínútur með Real á leiktíðinni, hefur enn ekki skorað og hefur ekki byrjað einn einasta leik.

"Ég veit ekki hvað ég þarf að gera til að vinna mér sæti í liðinu hjá Capello því ég er í góðu formi og er alls ekki of þungur. Ég þarf bara tækifæri til að sanna það fyrir þjálfaranum. Hann hefur greinilega ekki trú á mér, því annars hefði hann leyft mér að spila meira," sagði Ronaldo og bætti við að hann ætlaði að spila út samning sinn við Real sem rennur út árið 2008 og svo ætlaði hann sér að ljúka ferlinum 35 ára gamall annað hvort í Bandaríkjunum eða heima í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×