Sport

Barcelona leiðir í hálfleik

Deco og Xavi fagna marki þess fyrrnefnda á Nou Camp í kvöld.
Deco og Xavi fagna marki þess fyrrnefnda á Nou Camp í kvöld. Getty Images

Staðan á Nou Camp leikvanginum í Barcelona er 1-0 fyrir heimamönnum gegn Chelsea þegar flautað hefur verið til hálfleiks í leik liðanna í Meistaradeildinni. Það var Portúgalinn Deco sem skoraði markið strax á 4. mínútu leiksins.

Barcelona mætti gríðarlega ákveðið til leiks og spilaði mjög vel framan af leik og hefði vel getað bætt við fleiri mörkum. Eftir því sem liðið hefur á hálfleikinn hefur Chelsea hins vegar sótt í sig veðrið og fengið nokkur góð færi. Mikill hiti er í leikmönnum og hefur litlu mátt muna að allt sjóði upp úr.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur látið fara hægt um sig í fremstu víglínu og ekki fengið færi. Lionel Messi hefur hins vegar átt mjög góðan leik og borið uppi sóknarleik Evrópumeistaranna.

Af öðrum leikjum má nefna að Liverpool hefur 1-0 forystu gegn Bordaeux á heimavelli sínum en það var Luis Garcia sem skoraði markið. Þau undur og stórmerki hafa átt sér stað að Rafael Benitez stillir upp sama byrjunarliði og hann gerði gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Werder Bremen hefur 3-0 forystu gegn Levski Sofia á útivelli og Shatkar Donets er að vinna Valencia, 2-1. Einum leik er lokið í Meistaradeildinni, Inter bar sigurorð af Spartak Moskva í Rússlandi, 0-1. Julio Cruz skoraði markið á 1. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×