Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur selt hlutabréf sín í fyrirtæki sem fjárfestir í rússneska orkugeiranum. Andstæðingar hans sögðu hættu á hagsmunaárekstrum ef hann héldi þeim. Bildt segist hafa selt hlutabréf sín í fyrirtækinu fyrir nokkrum vikum.
Bildt, sem er fyrrverandi sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna á Balkan-skaganum, segist ekki eiga lengur hluti í fyrirtækinu Vostok Nafta sem á stóranhlut í rússneska orkurisanum Gazprom.
Bildt hefur forkaupsrétt á hlut í félaginu sem hann getur ekki nýtt sér strax. Hann segist selja það um leið og mögulegt verði.
Hlutabréfaeign Bildt í félaginu vöktu umræðu í tengslum við áætlanir Rússa um að leggja gasleiðslu til Þýskalands um Eystrasaltið. Fyrri ríkisstjórn Svíþjóðar lýsti yfir áhyggjum vegna umhverfisáhrifa leiðslunnar.
Afsagnar Bildts hefur ekki verið krafist þó hann hafi verið gagnrýndur. Tveir ráðherrar hafa þegar sagt af sér úr nýrri ríkisstjórn Fredriks Reinfeldts, forsætisráðherra, menningamálaráðherrann og viðskiptaráðherrann vegna skattsvika.
Bildt sneri aftur í sænsk stjórnmál í nýrri ríkisstjórn Reinfeldts eftir að hafa gegnt embætti forsætisráðherra á árunum 1991 til 1994. Hann varð síðar sendifulltrúi Evrópusambandsins í fyrrum Júgóslavíu og átti þátt í að stýra friðarviðræðum í Bosníu sem Bandaríkjamenn leiddu.