Erlent

Hyggjast stefna hollensku fyrirtæki vegna losunar eiturefna

Um eitt þúsund fórnarlömb eitraðs úrgangs sem losaður var við Abidjan, höfuðborg Fílabeinsstrandarinnar, í ágúst hyggjast höfða skaðabótamál á hendur fyrirtækinu sem ber á ábyrgð á losuninni.

Fólkið hyggst stefna hollenska fyrirtækinu Trafigura vegna málsins en það á að hafa sent flutningaskipið Probo Koala til Fílabeinsstrandarinnar með eiturefnin eftir að losun þeirra reyndist of dýr í Hollandi. Talsmenn Trafigura neita því að bera ábyrgð á losun eiturefnanna og segja innlent fyrirtæki hafa verið fengið til að sjá um losun þess.

Málið komst í heimsfréttirnar í ágúsmánuði þegar íbúar í Abidjan fóru að veikjast vegna úrgangsins. Tíu manns hafa látist af völdum mengunarinnar og um 40 þúsund leituðu til læknis vegna einhvers konar eitrunareinkanna.

Tíu manns hafa verið ákærðir vegna málsins og fram kemur á fréttavef BBC að fleiri hópar undirbúi málssókn á hendur Trafigura vegna skaða sem þeir hafa orðið fyrir vegna mengunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×